7. júní 2008

 

Ræða dr. Ágústar Einarssonar, rektors Háskólans á Bifröst,

við útskrift 7. júní 2008

 

Kæru útskriftarnemar, starfsfólk Háskólans á Bifröst og aðrir gestir.

Fyrir rúmri viku nötraði jörð á Suðurlandi og fannst það vel hér í

Borgarfirði. Fyrr á öldum hefðu margir dáið enda getur náttúran, sem er

lífæð okkar, verið óblíð. Við sjáum það vel á því, að það breyttist ekki mikið

hérlendis frá lokum þjóðveldis í lok 13. aldar til loka 19. aldar eða í 600 ár.

Almenningur var sárafátækur, vosbúð, hungur og þrengingar einkenndu

samfélagið en við héldum áfram að vera þjóð vegna íslenskunnar og

Íslendingasagnanna. Hlutskipti þjóðarinnar á þessum tíma var ekki

öfundsvert en það breyttist hratt í upphafi 20. aldar. Merkir forustumenn

hvöttu þjóðina til framfara.

 

Í Íslandsljóði Einars Benediktssonar segir:

 

"reistu í verki

viljans merki,-

vilji er allt, sem þarf.

Trúðu á sjálfs þín hönd, en undur eigi.

Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi."

 

Einar var margþættur í lífi sínu, skáld, framkvæmdamaður og

stjórnmálaforingi. Þeir voru nokkrir slíkir í byrjun 20. aldarinnar. Jónas frá

Hriflu, stofnandi þessa skóla fyrir 90 árum, var meðal þeirra en frumkvæði

hans að mennta forustufólk fyrir íslenskt samfélag hefur verið leiðarstef mitt

sem rektor.

 

Samvinnuskólinn varð á þessum 90 árum að Háskólanum á Bifröst en þetta

er sami skólinn, aðeins urðu eðlilegar breytingar í tímans rás. Nú í ár fékk

Háskólinn á Bifröst viðurkenningu menntamálaráðuneytis að starfa sem

háskóli. Það er mikill áfangi fyrir okkur og við munum halda áfram að auka

gæði, festu og fjárhagslegan styrk. Það gengur vel en skólinn er að gera

margt fleira.

 

Háskólinn á Bifröst er einstakur háskóli í alþjóðlegu umhverfi og Ísland er

alþjóðasamfélag. Við hefjum kennslu í haust í viðskiptafræði alfarið á ensku

og erum m.a. að höfða til fólks af erlendum uppruna sem búsett er hérlendis

en einnig til fólks sem býr erlendis. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur

háskóli býður upp á slíkt nám. Fyrsti staðurinn sem við kynntum þessa nýju

námsleið var í Færeyjum. Allir eru útlendingar í nær öllum löndum heims og

ég tel að Íslendingar geti orðið útflytjendur á menntun. Menntun er auðlind

eins og fiskurinn, fallvötn, jarðvarmi og náttúrufegurð. Útrás getur verið

fólgin í háskólakennslu fyrir útlendinga og við á Bifröst ætlum að róa á þau

mið. Þeir fiska sem róa og það hafa Íslendingar svo sannarlega sýnt síðustu

100 árin og þið, útskriftarnemar, hafið ekki hvað síst lært það hér á Bifröst.

Mannauðurinn er lykilatriði við nýtingu allra auðlinda en menntunin er

meira. Hún kemur ykkur til þroska kæru útskriftarnemar, nokkuð sem fylgir

ykkur alla ævi en menntunin er einnig atvinnuvegur. Nám er vinna ykkar

nemenda og vinna kennara og annarra starfsmanna. Það vantar meiri

menntun í heimi fátæktar og örbirgðar en einnig fyrir hinar efnuðu þjóðir. Ég

á þá sýn að Ísland verði með góða menntun fyrir aðrar þjóðir og leggi þannig

af mörkum til hagsældar í heiminum en bæti einnig lífskjör Íslendinga. Við

erum að auka rannsóknir á Íslandi og það er vel og með því að setja

háskólakennslu í forgrunn þá aukum við fjölbreytni í atvinnuháttum.

 

Menntun er vissulega leið til framfara en menntun og menning er lykillinn

að því að halda jafnvægi í byggð landsins. Ef stjórnvöld vilja þetta jafnvægi

þá ber að efla þá háskóla sem eru á landsbyggðinni, skóla sem eiga langa

sögu samofna þjóðinni hvort sem þeir skólar eru á Akureyri, Hvanneyri,

Hólum eða á Bifröst. Þessir fjórir skólar eru reiðubúnir til að berjast fyrir

vandaðri háskólakennslu og rannsóknum, fullnægja þörfum landsins á

afmörkuðum sviðum og vera forustuaflið í hinu nauðsynlega jafnvægi í landi

þar sem 2/3 hluta þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu og ¾ hluta

þjóðarinnar búa á svæði sem er innan við klukkutíma akstur frá Lækjartorgi.

Slík þéttbýlismyndun er einsdæmi í veröldinni. Við á Bifröst erum mjög vel

meðvituð hvar fólkið er enda koma flestir af okkar nemendum af því svæði

þar sem flest fólkið er. Háskólinn á Bifröst hefur opnað útibú víða um land

en enn ekki í Reykjavík en það kemur að því.

 

Háskólanám er leið til jafnréttis og hjá okkur á Bifröst er jafnrétti kynjanna

ekki aðeins sjálfsagt heldur gerum við margt til að auka það. Við erum

ákaflega stolt af námsleiðinni Máttur kvenna en mörg hundruð konur hafa

útskrifast hjá okkur með grunnþekkingu í rekstrar- og upplýsingafræðum og

margar þeirra hafa haldið áfram námi, oft eftir langt hlé. Við héldum

fjölmennustu ráðstefnu í sögu Bifrastar í síðustu viku, Tengslanet IV - Völd

til kvenna. Þessa ráðstefnu sóttu nær 500 konur alls staðar af landinu. Þetta

er leiðin, því með aukinni menntun og samtölum bætum við okkar samfélag

og það eiga allir að fá tækifæri.

 

Á Bifröst fá allir tækifæri. Háskólinn á Bifröst er ekki fyrir hina fáu heldur

fyrir hina mörgu. Þið útskriftarnemar hafið lært margt hér og þið eigið að

muna að bera virðingu fyrir öðru fólki og öðrum skoðunum en vera föst fyrir

í forustu fyrir land og þjóð. Það fáið réttindi með útskriftinni í dag en því að

vera Bifrestingur fylgja skuldbindingar; skuldbindingar skólans,

skuldbindingar sögunnar og skuldbinding þess að vera nýtur einstaklingur.

Ryðjið þúfunum úr vegi eins og Einar Benediktsson kvað um.

 

Megi ykkur farnast vel á komandi árum og ykkar fjölskyldum. Megi gæfan

fylgja ykkur.

 

Þakka ykkur fyrir og Guð blessi ykkur öll. Hátíðinni er slitið.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta