Lektor í lögfræði flytur erindi á virtri, ástralskri ráðstefnu 10. janúar 2019

Lektor í lögfræði flytur erindi á virtri, ástralskri ráðstefnu

Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor á félagsvísinda- og lögfræðisviði Háskólans á Bifröst, flutti fyrir nokkru erindi á árlegri Janders Dean Horizons ráðstefnunni í Sydney í Ástralíu. Þetta er í annað sinn sem hún heldur erindi á þessari virtu ráðstefnu. Á ráðstefnunni var einblínt á nýjungar í lögfræðiþjónustu og hvernig mætti veita þátttakendum innblástur til að innleiða nýjan hugsunarhátt í sínu starfi og innan síns fyrirtækis.

Erindi Helgu Kristínar fjallaði um íslenskt nýsköpunarumhverfi og hvaða áskoranir lítil samfélög standa frammi fyrir þegar kemur að því að þróa tæknilausnir í greinum líkt og lögfræði þar sem smæð markaðar og sértækt lagaumhverfi geta takmarkað möguleika til tækniumbyltinga.

„Það er mikilvægt að lögfræðingar í nútíma starfsumhverfi tileinki sér tækninýjungar og tengi þær þekkingu sinni á sviði lögfræði til að skapa lausnir eða viðmót sem auka aðgengi almennings að þjónustunni,“ segir Helga Kristín.

Háskólinn á Bifröst var fyrstur íslenskra háskóla til að bjóða upp á þverfaglega námsgráðu í lögfræði með BS námi í viðskiptalögfræði. Þar fléttast saman tvær hagnýtar námsgreinar þannig að úr verður fjölbreytt og krefjandi nám sem þjónar hagsmunum atvinnulífsins einkar vel. Grunn- og meistaranám er í boði í fjarnámi, kynntu þér málið hér.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta