Frá Bifröst til London 19. desember 2014

Frá Bifröst til London

Bryndís Reynisdóttir er Bifrestingur í húð og hár en hún útskrifaðist frá Bifröst árið 2008. Í dag starfar Bryndís í London en fréttabréfið vildi fá að vita aðeins meira um það.

Hvenær og úr hvaða námi útskrifaðist þú?
Ég útskrifaðist árið 2008 með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.

Af hverju valdir þú Háskólann á Bifröst?
Eftir að ég kom á Bifröst til þess að kynna mér skólann heillaðist ég strax af námsfyrirkomulaginu, staðnum og umhverfinu í kring.

Hvað starfar þú í dag og hvernig kom það til?
Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Nine Worlds en við sérhæfum okkur í sölu og skipulagningu á ferðum fyrir það sem við köllum á ensku „High End and luxury clients“. Nine Worlds er nýstofnuð deild innan Iceland Travel en ég hef starfað hjá IT síðan 2011.

Hvernig hefur viðskiptafræðinámið frá Bifröst nýst þér í núverandi starfi?
Námið hefur nýst mér mjög vel í alla staði en sérstaklega finnst mér að reynslan við gerð misserisverkefna og ekki síst málsvarnir hafi nýst mér afar vel. Sá mikli undirbúningur og hópavinna sem fylgir þessum verkefnum og það að þurfa að standa frammi fyrir prófdómurum  og verja mál sitt er tvímælalaust það sem hefur gagnast mér hvað best.

Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?
Árin á Bifröst voru einstök að svo mörgu leyti, þarna ríkir einhver ólýsanleg stemmning og gleði sem erfitt er að finna annarsstaðar. Þar eignaðist ég marga af mínum bestu vinum og við vinahópurinn rifjum reglulega upp margar góðar minningar frá þessum árum.

Eitthvað að lokum?
Ég mæli eindregið með námi við Háskólann á Bifröst en sú ákvörðun að fara þangað í nám er ein sú besta sem ég hef tekið.

Bryndís er greinilega að njóta lífsins í London og óskum við henni góðs gengis í framtíðinni.



Þessi frétt er úr nýjasta fréttabréfi Háskólans á Bifröst.  Smelltu hér til að skoða það.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta