18. apríl 2017

Foreldrar með íþróttamótið í vasanum

Oddur Sigurðarson lauk námi í Háskólagátt við Háskólann á Bifröst árið 2014. Að því loknu lá leið hans í BS í viðskiptafræði á Bifröst og útskrifaðist hann nú í febrúar með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti. Oddur stundar nú meistaranám í menningarstjórnun við Bifröst en allt námið hefur Oddur tekið í fjarnámi við háskólann. Hann hefur nú nýtt sér viðskiptafræðiþekkingu sína til að móta snjallsímaforrit og tók nýverið þátt í Gullegginu með hugmynd sína.

 „Forritið kallast League Manager og gengur út á að nútímavæða íþróttamótahald með því að færa það frá blöðum og heimasíðum yfir í snjallsímana með öllum þeim möguleikum sem þeir gefa s.s. GPS staðsetningum íþróttavalla. Jafnframt verður í einum hugbúnaði að finna öll þau keppnisskipulög sem einstaklings-, hópa- og liðaskeppnir byggja á auk þess sem sérstakur eiginleiki er að hugbúnaðurinn getur skipt keppnisaðilum sjálfvirkt eftir getu eftir því sem mótinu framvindur. Allar upplýsingar er varðar mótið svo sem leiki, velli, tíma og staðsetningar ásamt öðru verða aðgengilegar í snjallsímum mótshaldara, keppenda og gesta. Þannig geta foreldrar verið Með allt mótið í vasanum, segir Oddur en hugmyndin kviknaði eftir Unglingalandsmótið UMFÍ í Borgarnesi árið 2010. Hjólin fóru svo að snúast þegar hann fékk tækifæri til að reyna á hugmyndafræðina sem hugbúnaðurinn byggist á árið 2014 á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki. Eftir það var ráðist í að þróa hugbúnaðinn og reyna og segir Oddur búnaðinn hafa staðist væntingar.

Á myndinni eru þeir Oddur (t.v.) og Mathieu Grettir Skúlason en þeir hafa unnið saman að hugmyndinni frá árinu 2014.

Háskólinn á Bifröst veitti þekkinguna og Gulleggið tækifærið

Oddur tók nýverið þátt í Gullegginu, frumkvöðlakeppni. Hann segir þátttökuna hafa mótað hugmyndina betur og möguleika hennar til þess að verða söluvara.

„Eftir að við komust í topp 10 þá gerðust hlutirnir hratt og við gerðum okkur betur grein fyrir hvaða hugmynd við hefðum í höndunum og þeim möguleikum sem hún biði uppá. Reynslan af þátttöku í Gullegginu var í raun ómetanleg og á eftir að nýtast vel jafnt í þessu verkefni sem öðrum. Við höfum nú gert þróunar- og samstarfssamninga við HSÍ, KKÍ og UMFÍ og horfum til Íslands sem þróunarsvæði fyrir hugbúnaðinn áður en við höldum inn á markað erlendis. Við vinnum þetta skref fyrir skref og stefnum á að í júlí verði grunneiningin tilbúin sem snýr að niðurröðun leikja og deilingu þeirra á velli. Í lok ársins fara svo að týnast inn aðgerðir sem lúta að notkun keppenda og gesta á upplýsingum er varða mótið ásamt dómaraviðmóti,“ segir Oddur.

„Ég er 56 ára fjölskyldumaður og bý með konu minni  á Hvammstanga, börnin eru að mestu flogin að heiman og mér fannst því kominn tími til að hefja nám á ný. Upphaflega ætlaði ég aðeins að taka Háskólagáttina en mér líkaði námið svo vel á Bifröst að ég hef haldið áfram þar. Fjarnámið þar er það besta á landinu, þægilegt, auðvelt  og notalegt,“ segir Oddur um tilurð þess að hann ákvað að setjast á skólabekk. Hann segir bæði viðskipta- og markaðsfræðina hafa hjálpað sér mikið við áætlanagerð og skipulagningu á markaðssetningu hugbúnaðarins. Eins hafi reynst vel að hafa lokið námskeiðum sem byggðust á að fara ofan í saumana á rekstri raunverulegra fyrirtækja.

„Í heildina má segja að nánast hvert einasta námskeið sem ég hef lokið á mínum námsferli á Bifröst hafi nýst á einn eða annan hátt í þessari vinnu og þau eiga örugglega eftir að nýtast enn betur. Ég hefði aldrei komist svona langt án þessa náms. Það er ekki nóg að hafa hugmyndina það þarf að hafa þekkingu og tækifæri til þess að vinna úr henni. Háskólinn á Bifröst veitti mér þá þekkingu og Gulleggið gaf okkur tækifærið,“ segir Oddur.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta