25. október 2016

Farsælt samstarf við Rúmenska háskóla

Karl Eiríksson, alþjóðafulltrúi Háskólans á Bifröst, heimsótti fjóra samstarfsskóla háskólans í Rúmeníu nú fyrr í haust. Þangað fór Karl með það að markmiði að kynna sér starfið í háskólunum þar ytra og um leið að kynna fyrir rúmenskum háskólanemum Alþjóðlega Sumarskólann við Háskólann á Bifröst.

„Ég vildi einnig kanna hvort þetta væri vænlegur staður fyrir okkar nemendur til að fara í skiptinám og komst að því að þarna leynast víða ónýtt tækifæri. Rúmenía kom mér mjög á óvart enda þjóðin nú að upplifa 6% hagvöxt og uppbygging hröð í landinu. Þar hefur margt breyst á síðastliðnum sex árum,“segir Karl.

Karl átti fundi með rektorum og starfsfólki á alþjóðaskrifstofum háskólanna þar sem hann fékk leiðsögn um skólana og háskólasvæðin. Hann segir flesta háskólana vera í miklum vexti og þróun en nefnir sérstaklega tvo háskóla sem sem honum þótti standa upp úr.

„Starfsfólkið á alþjóðskrifstofunni í University of Craiova voru alveg frábært teymi og sú alþjóðaskrifstofa skar sig úr. Ég sé fyrir mér að eiga áfram samstarf við þau á ýmsum sviðum og eins að senda nemendur í skiptinám við Romanian American University sem staðsettur er í Búkarest. Sá skóli er með sterkar viðskipta- og hagfræðideildir og fær til sín marga bandaríska gestakennara í styttri og lengri tíma. Kennsla og kennsluhættir standast þar fullkomnlega þær kröfur sem gerðar eru í háskólanámi hérlendis og hugsunarhátturinn í starfinu svipaður og hjá okkur á Bifröst, “ segir Karl.

Háskólinn á Bifröst hefur átt í farsælu samstarfi við rúmenska háskóla og fræðimenn síðastliðin þrjú ár og segir Karl það sannarlega vera hugmynd að styrkja enn meira tengslin þar á milli og þá sérstakleg að efla nemendaskipti á milli landanna. Í Rúmeníu sé mjög hagstætt að vera og landið sé vinalegur og öruggur áfangastaður.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta